Heilbrigður grindarbotn og grindarbotnsæfingar

  • Forsíða
  • /
  • Heilbrigður grindarbotn og grindarbotnsæfingar
Alt
on 26 Oct 2016 4:27 PM

Talið er að ein af hverjum þremur til fjórum konum þjáist af þvagleka af einhverju tagi á lífsleiðinni. Til eru 3 tegundir þvagleka; áreynsluþvagleki (þvagleki við áreynslu t.d. við það að hnerra, hósta, hlæja eða gera líkamsæfingar), bráðaþvagleki (mikil þvagþörf og þvagleki þegar viðkomandi nær ekki á salerni) og blandaður þvagleki (áreynslu- og bráðaþvagleki). Helstu áhættuþættir þvagleka hjá konum eru meðganga og fæðing, legnám, hækkandi aldur og offita. Áreynsluþvagleki er langalgengastur en hægt er að koma í veg fyrir og meðhöndla áreynsluþvagleka með markvissum grindarbotnsæfingum. Í alvarlegri tilfellum gæti þurft meira inngrip eins og sjúkraþjálfun, lyfjagjafir eða skurðaðgerð.

Grindarbotnsvöðvarnir líkjast hengirúmi og liggja frá lífbeini að framan og aftur á rófubein. Þeir mynda einskonar gólf undir mjaðmagrindinni og umlykja þvagrás, leggöng og endaþarm.

Mikilvægt er fyrir konur að þjálfa grindarbotninn. Samdráttur í grindarbotnsvöðvum styður við líffæri í grindarholinu en má þar telja leg, þvagblöðru, þvagrás og endaþarm. Til þess að þjálfa grindarbotnsvöðva þarf kona að vera fullviss um að verið sé í raun að spenna rétta vöðva. Margar konur eiga erfitt með að tileinka sér rétta spennu og rugla oft spennu í grindarbotni við spennu í kvið- og rassvöðvum. Gott getur reynst að þreifa eftir réttum samdrætti í grindarbotni með því að setja fingur í leggöng og finna vöðvana spennast utan um hann þegar grindarbotnsæfing er gerð.
Einnig er hægt að prófa að finna rétta spennu í grindarbotni með því að stöðva þvagbunu við þvaglát. Hér er þó aðeins verið að ræða próf til að finna spennu en ekki æfingarform og því aðeins ráðlagt að prófa þetta einstaka sinnum.

Eirberg býður upp á margar tegundir grindarbotnsþjálfa sem auðvelda og leiðbeina konum við æfingar. Allar konur ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi. Grindarbotnsþjálfar eru tilvaldir fyrir konur sem vilja byggja upp sterkan grindarbotn og fyrirbyggja þvaglekavandamál. Sterkir og næmir grindarbotnsvöðvar spila einnig lykilhlutverk þegar kemur að heilbrigðu kynlífi.
Þær konur sem eru með slakan grindarbotn og upplifa óþægindi eins og þvaglát/-leka við áreynslu, eftir barneignir eða eftir tíðahvörf geta fengið faglega ráðgjöf við val á grindarbotnsþjálfa sem hentar hverri og einni.
Hér má skoða þá grindarbotnsþjálfa sem Eirberg býður uppá.

Ekki búast við að árangur komi á einu kvöldi, grindarbotnsvöðva þarf að þjálfa á hverjum degi markvisst í þrjá til fjóra mánuði til að sjá árangur. En það er til mikils að vinna og sterkur grindarbotn er vel þess virði.
Athugið að ekki skal nota grindarbotnsþjálfa af nokkru tagi á meðan á meðgöngu stendur.
Einnig er ekki ráðlagt að nota grindarbotnsþjálfa eftir fæðingu fyrr en að úthreinsun er að fullu lokið.
Grindarbotnsæfingar án þjálfa eru þó ráðlagðar strax eftir fæðingu.


Sjúkraþjálfarar Eirbergs bjóða upp á ráðgjöf við val á grindarbotnsþjálfum í viðtalsherbergi á Stórhöfða 25. Tímapantanir eru í síma 569-3100.